Ég heyrði svo ótrúlega mikilvæga umræðu í morgunþættinum Brennslan á fm957 á mánudaginn, en þá var verið að ræða barneignir. Þið hafið kannski flest öll annað hvort fengið spurninguna: "Jæja, hvenær á svo að skella í eitt kríli?" eða jafnvel sjálf spurt: "Hvenær á svo að koma með strákinn?"
Þetta eru ótrúlega dónalegar spurningar!
Í fyrsta lagi, hvað kemur þér það við hvort Jón og Gunna ætli að koma með barn? Hvað kemur það þér við hvort Siggi og Jóna ætla að henda í eitt annað? Eða ég, sem á tvær stelpur, hvenær ætli ég komi nú með strákinn?
Þið vitið ekki aðstæður hjá fólki:
- Er fólk að reyna að eignast barn? Þú veist það ekki!
- Geta þau eignast barn? Gunna var nýbúin að taka óléttupróf og var vongóð um að þetta gengi upp núna í þetta sinn en fékk enungis eitt strik á prófið, svo var hún spurð: "Hvenær á að koma með kríli?"
Svona geta aðstæður verið hjá fólki
Aðrar aðstæður - langar Gunnu og Jóni í barn?
Það eru svo ótrúlega margar og mismunandi ástæður hjá fólki sem við hin vitum ekkert um og þessar spurningar geta sært viðkomandi mjög mikið.
Spurningin sem ég fæ oftast er með strákinn, ég fæ að heyra hana svo oft og er spurt svona 2-4 í mánuði hvenær við Unnar ætlum að koma með prinsinn.
Ég er orðin svo þreytt á þessari spurningu, ef ég segi: "Það mun ekki koma neinn strákur, okkur langar ekki í annað." Þá er ALLT BRJÁLAÐ og fólk í alvörunni móðgast - bara ha? Ertu að segja mér það að þig langi ekki í annað barn? Þú getur ekki sagt þetta, þú ert svo ung... Þú átt eftir skipta um skoðun og koma með annað barn.
Á ég að þurfa rökstyðja svar mitt eins og í prófi þegar ég var í grunnskóla?
Þarf ég að sannfæra alla um að mig langi ekki í annað barn?
Af hverju er þetta svona mikið mál? Nei, í alvörunni... Ég á tvö heilbrigð börn sem ég er ótrúlega þakklát fyrir og elska mjög mikið og það er líka bara fínt!
Ég hef aldrei skilið af hverju fólk þarf að spyrja.... Ef ég myndi nú segja: "Já, við erum nú búin að vera að reyna og reyna í 1 og hálft ár en ekkert gengur og næsta skref er að fara og fá hjálp" Hvað þá? Hvað ætlar þú að segja þá? Eða hvað ef ég myndi segja: "Já, barn segiru? Ég get ekki eignast börn"
Hvað ætlar þú að segja þá?
Það vita samt allir að það er enginn að meina neitt illt með þessari spurningu, en ég bara skil ekki af hverju ÞESSI spurning? Af hverju ekki bara, hvernig líður þér? Hvernig hefur þú það? Hvenær á að fara hringinn í kringum landið? EITTHVAÐ ANNAÐ!!!!
Stundum þarf ekkert að vera að hrjá viðkomandi en yfirleitt er þetta mjög persónulegt og fólk vill yfirleitt halda þessu útaf fyrir sig.
Næst þegar þú hittir vinapar, frænku, frænda, kunningja eða hvern sem er - hugsaðu fyrst áður en þú spyrð.
Eitt annað sem tengist þessu, ég man svo vel þegar Eyja Dís var nýfædd og þá var einmitt verið að lauma þessari spurningu stundum "í gríni" hvort við ætluðum ekki að koma með annað. Þegar Eyja var 9 mánaða varð ég ólétt aftur en þá var fólk að tala um hversu miklar kanínur við værum og hvað við værum að gera þetta hratt... Hahah!
Kannski var ég og er mjög bitur í þessum pósti en TAKK Kristín og Rikki á FM fyrir þessa umræðu "out loud" á mánudaginn!
Farið varlega,
Comments