top of page
Writer's pictureAníta Arndal

Vá, hvað hann er duglegur!


Ég hef svo oft byrjað að skrifa þessa færslu en alltaf strokað allt út og hætt við....

En þetta hefur svo lengi verið í huga mínum og ég hef svo oft talað um þetta við mína nánustu og ég er alveg viss um að það sé einhver þarna úti sem tengir, þetta er nokkuð vel út fyrir þægindarrammann en ég ætla að deila þessu með ykkur. "Já, vá! Hann er svo duglegur. Hann er svo duglegur með börnin" "Hann er svo duglegur að elda" Hann er svo duglegur að gera hitt og þetta.

Þessar setningar eru mikið notaðar um manninn minn.

Hann er rosalega duglegur, bæði með börnin okkar tvö og heimilisstörf. En það sem mig langar til þess að ræða er að VIÐ mömmurnar fáum aldrei (eða allavega ég) þessi hrós um okkur. Ég hef oft spurt mig, afhverju?

Er það vegna þess að það er bara gert ráð fyrir því að við séum duglegar? Eða er það vegna þess að það er ekki jafn algengt að mennirnir taki þátt í heimilisstörfum og þ.h?

Mér finnst ég drullu dugleg og á mjög oft erfiða daga en er mjög stolt af mér og segi við mig, þú ert mjög dugleg.

Vertu dugleg/ur að hrósa sjálfri/um þér (og öðrum) og segðu það upphátt, helst fyrir framan spegilinn BROSANDI.

"Vá, Aníta mín... Þú ert svo heppin með hann Unnar þinn" er svo mjög algeng setning sem ég er komin með svo leið á.

Af hverju er ég heppin? Er hann ekki jafn heppinn og ég? Við VÖLDUM hvort annað, ég dróg ekki miða og vann hann á uppboði. Ég valdi mér góðan og duglegan mann og hann valdi mig.

Ég er samt mjög ánægð með mitt val á manni og sé ekki eftir því. Hann ER mjög duglegur og ég ER mjög heppin og ég veit allt um það.


Ég er alls ekki að sækjast eftir hrósi eða að segja að fólk eigi að hætta að hrósa karlmönnum en mig langar að opna þessa umræðu og vekja athygli á því að okkur finnst alveg jafn mikilvægt og gaman að fá hrós fyrir það sem við erum að gera eins og karlar.

Ég reyni alltaf að vera mjög dugleg að hrósa fólki, þá sérstaklega börnunum mínum, manninum mínum, vinum og samstarfsmönnum.

Ég viðurkenni, mér finnst gaman að fá hrós og ég veit að þér finnst það líka.

ÖLLUM FINNST GOTT AÐ FÁ HRÓS - það getur gert daginn betri, jafnvel vikuna.

Þú sem ert að lesa, þá langar mig að segja þér að þú ert hörku dugleg/ur og ég er stolt af því sem þú ert að gera. Haltu áfram að vera þú.

Ætla ekki að hafa þetta lengra í bili,

þangað til næst



0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page